Hvenær er í lagi að skoða snjallsíma við matarborðið?

Við könnumst öll við þær hræðilega úrkynjuðu aðstæður í partýi eða við matarborðið þegar allt í einu eru ALLIR í símanum. Hver einn og einasti einstaklingur í þessum annars ágæta mannfögnuði er í snjallsímanum með 90% athygli á skjánum en svona þykjustunni 10% athygli í veislunni til þess að taka eftir því ef einhver færi að stunda mannleg samskipti.

Ég þekki þessar aðstæður mjög vel frá eigin reynslu og hef staðið sjálfan mig að verki oftar en einu sinni og ég hef svo sannarlega staðið aðra að verki. Ég hef meira að segja hneykslast á heilli hjörð Kínverja sem létu þessa hegðun eftir sér. Þetta er virkilega sorglegt og næst þegar þú áttar þig á því að partýið þitt hefur skyndilega breyst í farsímaorgíu þá ættir þú líklega að taka upp símann þinn, splæsa einu símtali á lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og tilkynna lélegasta partý aldarinnar.

Á sama tíma og snjallsímar hafa bætt líf okkar til muna þá hafa þeir svo sannarlega haft sorgleg áhrif á félagslífið okkar. Þess vegna finnst mér ekki vitlaus hugmynd að búa til einhverskonar reglur sem takmarka og skilgreina snjallsímanotkun í hópi vina eða fjölskyldu.

Hér fyrir neðan eru því drög að 21. Aldar notendahandbók fyrir snjallsímaeigendur.

snjallsimar2

#1 – Gullna reglan er sú að við matarborðið ætti enginn að líta á símann sinn – Engar undantekningar!

#2 – Ef einhver er staðinn að verki við að stelast í símann mega allir við borðið hella sér yfir viðkomandi og kalla hann/hana öllum illum nöfnum í þrjátíu sekúndur án þess að það hafi neinar afleiðingar eða eftirmála. Sömuleiðis má sá sem fyrstur var að koma auga á brotið á reglu #1 fara í snjallsímann sinn í eina mínútu sem verðlaun.

#3 – Ef síminn er geymdur uppi á borði en ekki í vasa eða tösku verður hann í öllum tilvikum að snúa með skjáinn niður (undantekning í gr.#4). Ef skjárinn snýr upp er mun líklegra að truflun verði af honum þar sem flestar tilkynningar birtast strax á forsíðunni. Undantekning gildir ef þjónninn biður viðkomandi að færa símann til þess að koma mat eða drykk fyrir á borðinu en þá má sá og hinn sami kíkja á Facebook í símanum í eina mínútu.

#4 – Aðeins foreldrar með lítil börn heima í umsjá barnapíu mega geyma snjallsíma á borðinu með skjáinn vísandi upp í loft. Þeir þurfa að sjálfsögðu að vera í stöðu til þess að stökkva til ef eitthvað skildi koma fyrir. Innan þessa skilmála verður barnið þó að vera undir níu ára aldri og barnapían nýlega komin úr fangelsi.

#5 – Ef eitthvað fyndið gerist á Facebook verður sá sem finnur það fyndna að deila því með öllum við matarborðið en þar að auki mega allir aðrir athuga efstu fimm færslurnar á sínu Facebooki til þess að gá hvort að eitthvað spennandi sé að finna á þeirra Facebooki líka.

#6 – Ef áhugi er fyrir því að Instagramma matinn sinn verður að hafa nokkur atriði í huga. A) Það er ekki leyfilegt að taka mynd með flassið á, myndin verður ekki góð og það er vandræðalegt. B) Ekki mega fleiri en þrír taka mynd á sama tíma, ef það kynni að koma fyrir gætu borðin í kring haldið að þið væruð í raun og veru kínverjar í dulargervi sem hyggðust ná heimsyfirráðum.

snjallsimar3

#7 – Enginn má fara með snjallsíma á klósettið, þessi regla er mjög mikilvæg. Ekkert gott kemur í kjölfar þess að snjallsími fái að fljóta með í þessa annars óaðlaðandi ferð þar sem enginn vill fá klósett selfie á Snapchat og ferðin verður alltaf um það bil tvem mínútum lengri. Best er að kjósa í byrjun kvöldverðar einn umsjónarmann sem hefur það hlutverk að halda utan um síma á meðan aðrir gestir fara á salernið.

Undantekning er á þessari reglu þegar formaður þarf sjálfur að nota salernið en þá er vænlegast að taka upp spilastokk og spila einn leik í ÓlsenÓlsen upp og niður. Mun sá sem tapar í þeim leik ósjálfrátt taka við starfi umsjónarmanns þar til hann hefur lokið þörfum sínum.

#8 – Ef umræðan við kvöldverðarborðið snýst á einhverjum tímapunkti um það að finna svar við spurningu sem auðveldlega má finna á Google – Eins og til dæmis hvaða leikkona lék eiginkonu Woody Harrelson í þáttunum True Detective?- þá má einn einstaklingur við borðið nota Google í símanum.

#9 – Sá einstaklingur sem tekur það á sig að leita á Google og finnur svar sem allir við borðið samþykja án mikillar fyrirhafnar fær að skoða Facebook, Snapchat og Instagram í þrjár mínútur.

#10 – Ef einhver við borðið fór nýlega í brúðkaup eða eignaðist barn þá má alls ekki sýna myndir frá þessum viðburðum. Þetta er mjög alvarlegt brot og ef einhver einstaklingur við borðið lætur standa sig að þessum brotum mega allir hinir borðgestir skoða stefnumótaappið Tinder í 90 sekúndur á meðan brúðkaupsgestirnir eða nýbökuðu foreldararnir verða að hringja á leigubíl og ganga frá borði.

snjallsimar

Bónusráð #11 – Ef þú stendur einhvern að verki við að taka upp snjallsíma í fyrsta kvöldverðinum með nýjum tengdarforeldrum þá verður viðkomandi að skila símanum til næsta þjónustuaðila (Nova, Síminn eða Vodafone) og breyta tafarlaust yfir í Nokia 3110 eða talstöð.

Dettur þér fleiri reglur í hug? Endilega láttu okkur vita í athugasemdum hér fyrir neðan!