Reknar heim úr skóla vegna truflandi klæðaburðar

Ættu konur að breyta sinni hegðun og framkomu til þess að trufla ekki karla á meðan ungir strákar eru hvattir til þess að viðhalda sinni hegðun?

Hvort er það vandamál kvenna eða karla að konur séu kyntákn í augum karla?

Í Kanada eru nú heitar umræður um það hvort konur eigi að klæða sig á ákveðinn hátt til þess að trufla ekki karlmenn eða hvort karlmenn eigi að hætta að horfa á konur sem kyntákn. Flestir hér á landi ættu að minnsta kosti að vera sammála um það að kennarar og skólastjórnendur í menntaskólum í Nýfundnalandi, Kanada, ættu að endurskoða sína stefnu í þessu máli.

Síðustu vikur hefur hitabylgja geyst í Kanada og fólk um allt land því verið fáklæddara en venjulega. Í kjölfarið hafa 20-30 stúlkur í ermalausum bolum verið reknar heim úr menntaskólum landsins af þeirri ástæðu að sést hefur í böndin á brjóstarhöldurunum þeirra og bæði karlkyns nemendur og kennarar hafa orðið fyrir miklum truflunum af völdum þess.

Í stað þess að segja karlmönnunum að hafa stjórn á sér og einbeita sér að námi eða kennslu var stúlkunum sem fækkað höfðu fötum náttúrulega vísað úr kennslustundunum. Það bitnar að sjálfsögðu á námi stúlknanna en þessi ákvörðun var að sjálfsögðu það eina í stöðunni, ekki satt?

Menihek menntaskólinn gaf út tilkynningu í síðustu viku þess efnis að hópi stúlkna hafi verið vísað úr kennslu vegna brots á reglum skólans um klæðaburð.

Nemandi í skólanum, Danielle Matias, segir stefnu skólans um klæðaburð fáránlega og alls ekki vera í takt við nútímaþróun um jafnrétti kynjanna.

„Okkur er í alvöru talað sýnt myndband í byrjun hvers skólaárs þar sem við erum minntar á að við megum ekki klæðast hverju sem er vegna þess að karlkyns nemendur skólans gætu tekið því á rangann hátt,“ segir Danielle.

Það að brjóta reglur skólans um klæðaburð er eitt en að skólayfirvöld hafi sérstakar reglur um klæðaburð svo karlkyns nemendur og kennarar verði ekki fyrir truflunum er allt annað. Þá er mikið að kerfinu.

Reglur um Klæðaburð kvenna í Kanada
Eiga konur að klæða sig þannig að þær trufli ekki karlmenn - eða eiga karlmenn að hætta að truflast af klæðaburði kvenna?