Söngnám aldrei vinsælla segir Regína Ósk

reginaoskÁ Íslandi stunda  umtalsvert fleiri stelpur en strákar  söngnám en með vinsælum raunveruleikaþáttum eins og Idol og Ísland Got Talent eru strákar farnir að mæta í söngskóla í auknu mæli.

Dagurinn spjallaði við Regínu Ósk, yfirkennara í Söngskóla Maríu Bjarkar, um þessa þróun og um nýtt sumarnámskeið sem verður í fyrsta skipti í boði í Reykjavík.

„Þegar ég var yngri var enginn svona skóli í boði, en í dag er endalaus eftirspurn frá rosalega breiðum hópi“ segir Regína þegar hún er spurð út í eftirspurnina eftir söngnámskeiðum.

„Við höfum oft verið með allt að 96% stelpur í skólanum en á síðustu árum hefur verið skemmtilegt að fylgjast með mikilli aukningu í því að strákar komi á námskeið til okkar og við teljum það meðal annars vera vegna áhrifa frá raunveruleikaþáttum eins og Idol og Ísland Got Talent“.

„En skólinn leggur þó ekki upp með það  að búa til poppstjörnur,“ segir Regína þó svo að þar hafi söngkonur eins og Jóhanna Guðrún og Ragnheiður Gröndal stigið sín fyrstu skref.

„Þetta snýst frekar um að fólk á öllum aldri komi og fái útrás í gegnum sönginn og líði vel hjá okkur. Í skólanum er skemmtilegur félagsskapur og svo er söngur besta útrás í heimi, bæði líkamlega og andlega. Hann gefur okkur meira sjálfstraust en við kennum nemendum líka að koma fram sem er rosalega mikilvægt sama hvað þú tekur þér fyrir hendur í lífinu“.

Sumarnámskeiðið hjá Söngskóla Maríu Bjarkar verður í fyrsta skipti haldið í Reykjavík í sumar og stendur yfir í einn mánuð frá 2. júní – 4. júlí. Námskeiðið er fyrir alla krakka og unglinga á aldrinum 5-15 ára en allir aldurshópar geta farið í einkatíma í skólanum.

Nánari upplýsingar er hægt að fá á heimasíðu skólans, hérna.