Fór í blómamynstraðar buxur og varð hommi

arnareyfell2

Arnar Már Eyfells

Arnar Már Eyfells er 21 árs gamall upplýsinga- og sölufulltrúi hjá Nova. Hann átti heldur betur óvenjulegan dag í gær þegar hann ákvað að klæðast öðrum buxum en hann er vanur. Lestu allt um stóra blómabuxnamálið í pistilinum hans hér að neðan.

Mig langar fyrst að byrja á því að hampa Pollapönk fyrir framlag sitt til Eurovision í ár, vegna þess að ef einhverjir þurfa á vitundarvakningu að halda, þá eru það við Íslendingar. Ég skal segja ykkur af hverju. Ég ákvað að fara aðeins út fyrir normið í dag og prufa eitthvað nýtt – í klæðnaði. Þannig er mál með vexti að ég var að fara hitta félaga mína niðri í bæ og ákvað að henda mér í buxurnar sem sjást á myndinni hér fyrir neðan. Þær eru kannski örlítið litríkar og skórnir vissulega líka, en persónulega fannst mér ekkert athugunarvert við þetta. Ef ég kýs að klæða mig í buxur með blómamynstri, hvort sem ég er karlmaður eða kona, þá ætti ég ekki að líða fyrir það og finnast ég eitthvað öðruvísi fyrir vikið. Þetta var í rauninni hálfgerð tilraun til þess að athuga hvernig fólk myndi bregðast við mér í þessum fötum í samanburði við það sem ég klæddist í gær.

 

arnareyfells

Umræddar blómabuxur og skór í stíl

En aftur að sögunni. Ég var að hjóla í átt að Glæsibæ þegar ég heyri allt í einu hrópað í áttina að mér: “Hah, GAY!” Ég brást ekkert sérlega illa við þessu, enda bara (sirka) tólf ára krakkar – en velti því samt fyrir mér af hverju þeir voru að kalla þetta á eftir mér. Ég áttaði mig samt fyllilega á því að þeir voru að kalla svona á eftir mér vegna buxnanna sem ég var í.

Því næst er ég stopp á ljósum á Suðurlandsbrautinni þar sem þrír strákar sitja saman í bíl, þeir skrúfa niður rúðuna í þann mund sem þeir taka af stað og öskra á mig: “Djöfull ertu hommalegur maður!” og hlógu síðan alveg óendalega mikið áður en þeir voru alveg horfnir. Þá vaknaði spurningin aftur: Af hverju héldu þessir strákar að ég væri samkynhneigður, bara vegna þess að ég var í blómabuxum? Erum við í alvörunni ekki komin lengra en þetta? Ég þekki helling af hommum og þeir klæðast ekkert frekar blómabuxum frekar en hver annar.. þessi stereotýpíska ímynd er reyst á svo mikilli fornaldarhugsun að ég ældi næstum því yfir mig.

Ég hélt að þetta væri líka algjört low-point en bíðið bara.
Þegar ég var kominn niður í bæ fer ég af hjólinu, læsi því og rölti svo niður að Kolaportinu.
Á leiðinni þangað voru, ekki bara einn eða tveir, heldur örugglega vel yfir helmingurinn af fólki sem ég gekk fram hjá að benda á mig (ekki beint benda, heldur kasta hendinni snögglega svona lufsulega í átt að mér) og stara á mig.

Þetta var alveg einstaklega óþægilegt og ég fylltist endanlega reiði þegar ég gekk fram hjá Te og Kaffi þar sem eldra par sat og hvíslaði sín á milli (og ég átti alveg örugglega ekki að heyra): “mikið rosalega eru þessir hommar í dag orðnir djarfir.”

Ég gat ekki annað en stoppað og starað til baka í smá stund áður en ég hélt aftur af stað.
Svona var dagurinn í hnotskurn. Fólk starði bara vegna þess að þetta var ekki normið. Talaði sín á milli um samkynhneigða, kallaði á eftir mér og starði.

Já, ágætu Íslendingar, við þurftum svo ótrúlega á þessari vitundarvakningu Pollapönks að halda.

Megininntakið í laginu hjá Pollapönk einkenndist einmitt af því að við erum öll eins inn við beinið.
Að við ættum að losa okkur við þröngsýni og taka einstaklingnum eins og hann er, sama af hvaða kyni eða kynþætti hann/hún er. Hvort sem hann/hún er samkynhneigð/ur eða ekki.
Þetta á ekki að skipta máli. Af hverju þurfum við að setja út á annað fólk? Af hverju þurfum við að dæma bókina eftir kápunni, frekar en að: A) annað hvort að sleppa því að dæma einstaklinginn yfir höfuð, eða B) kynnast einstaklingnum áður en þú setur út á hann?

Klæðaburður skiptir ekki máli. Ég er reyndar ekki samkynhneigður, en vegna þess að ég ákvað að klæðast buxum með blómamynstri á í einn dag, þá gáfu sér það allir eins og það væri eitthvað slæmt og voru ekkert að spara mér kveðjurnar. Ef samkynhneigt fólk þarf í alvörunni að sæta þessu ógeðslega viðmóti einhverntíman, bara vegna þess að þeir eru ekki gagnkynhneigðir – þá finn ég innilega til með þeim, vegna þess að þetta á ekki að skipta máli.

Lífið er of stutt
Fyrir skammsýni

Burtu með fordóma
Og annan eins ósóma
Þetta er engin algebra
Öll erum við eins.

Elskum náungan og reynum að standa öll saman, svona í alvörunni.