Safnar með lengsta spinningtíma ársins

sandrabjörg

Sandra Björg Helgadóttir er nú í vor að útskrifast úr iðnaðarverkfræði og ætlar að fagna áfanganum með útskriftarferð til Bandaríkjanna. Hún ætlar að safna fyrir ferðinni með því að blása til lengsta spinningtíma ársins á sunnudaginn 25.maí.

Dagurinn ræddi við Söndru.

„Ég er að vinna með skóla en núna og næsta mánuðinn er náttúrulega prófatörn í gangi og það tekur sinn toll. Krakkarnir sem eru með mér eru búnir að vera að selja klósettpappír og fleira eins og ég hef gert síðustu ár en í ár hef ég lítinn tíma og langar rosalega að gera eitthvað nýtt.

Ég er búin að kenna spinning í World Class síðan árið 2011 og er búin að kynnast rosalega mikið af fólki sem ég veit að væri til í eitthvað nýtt. Mig langaði að gera eitthvað spennandi og fékk þá hugmynd að þessari hvatvísu fjárölfun.

Það vantar alltaf afþreyingu á Íslandi og það er auðvitað rosalegt spinningæði núna og þess vegna held ég að þetta geti orðið skemmtilegur sunnudagur þar sem hópar geta komið saman og prófað íþróttina og haft gaman af“.

Sandra tekur það fram að gestirnir sem koma verða ekki píndir til þess að hjóla allann tímann en hún sjálf ætlar að reyna að hjóla alla sex tímana þó hún skipti kennslunni með öðrum kennurum svo hún verði ekki raddlaus.

„Ég er búin að fá frábæra spinningkennara til að kenna tímann með mér og safna fullt af vinningum í happdrætti. Það verða dregnir út vinningshafar á hálftíma fresti auk þess sem Ölgerðin mun bjóða upp á kalda drykki allann daginn.

Þú þarft ekki að vera með kort í World Class til þess að koma,“ bætir Sandra við en það mun kosta 500 krónur inn í tímann og þá fylgir happdrættismiði með.

Styrktaraðilar Söndru eru,

Nikeverslun.is
66°Norður
Sushisamba
Kjötbankinn
Culiacan
Gló
Sportlíf.is
World Class

„Stærsti vinningurinn verður NutriBullet vélin frá Kosti,“ segir Sandra Björg að lokum.

Ef þú nennir ekki að eyða sunnudeginum í þynnku, vogaídýfu og spennumynd sem þú hefur séð oftar en þrisvar getur þú komið í Laugar á sunnudaginn 25. maí, hrist af þér helgarspikið, tekið þátt í íslandsmeti og gert þig líklegan/n til að vinna í happdrætti!

Viðburðinn má finna á Facebook hérna!