Íslenskar stelpur lifa lífinu á Coachella

Þær Ásdís Reynisdóttir, Guðrún Adda Björnsdóttir, Ingibjörg Karlsdóttir og Karitas Sigurðardóttir eru í þessum töluðu orðum staddar í Santa Barbara.

Stelpurnar hafa síðustu tvo mánuði ferðast um Danmörku, Dubai, Tæland og Balí en þær enda heimsreisuna sína í Bandaríkjunum þar sem þær fóru meðal annars á Coachella tónlistarhátíðina.

Þetta myndband er frá tónlistarhátíðinni og ræddi Dagurinn við Guðrúnu Öddu um hátíðina og síðustu daga.

„Það var hellað á Coachella! Við ætluðum að vera í tjaldi en við „beiluðum“ á það daginn áður vegna þess að við gátum ekki hugsað okkur að vera í tjaldi í svona miklum hita,“ sagði Guðrún.

Stelpurnar eru búnar að sjá hljómsveitir og tónlistarmenn á borð við Outkast, Pharrell, Skrillex, Nas, Kid Kudi, MGMT, Queens of the Stone Age, Disclosure, Calvin Harris og Rudimental.

„Þetta var GEÐVEIKT,“ bætir Guðrún aftur við með stórum stöfum!

„Eftir Coachella keyrðum við til Santa Monica og gistum þar í eina nótt en erum nú staddar í Santa Barbara.

Ásdís er búin að keyra tvisvar sinnum yfir á rauðu ljósi og þess vegna er ég búin að búa til reglu. Í hvert sinn sem hún keyrir yfir á rauðu þá borgar hún mér 5 dollara. Þetta er regla sem allir græða á því að ég er að verða blönk og Dísa lærir umferðareglurnar“.

Það er greinilega ekki leiðinlegt að vera í heimsreisu en Dagurinn mun halda áfram að fylgjast með ferðalagi stelpnanna.