„Fullkomin afmælisgjöf að fá tækifærið“

1

Mynd 1 af 4

Hólmbert Aron Friðjónsson er leikmaður númer 19 hjá Celtic í Skotlandi en hann á 21. Árs afmæli í dag, þann 19.apríl. Hólmbert hefur verið að banka á dyr aðalliðsins síðan hann fékk leikheimild í janúar og hefur einu sinni setið á bekknum. Celtic tryggði sér nýverið sigur í Skosku úrvalsdeildinni og eru með 22 stiga forskot á toppnum þegar liðið mætir Motherwell nú í hádeginu í dag. Hólmbert segir að það væri „pörfekt“ afmælisgjöf að koma inná á afmælisdaginn.

Dagurinn ræddi við Hólmbert eftir að hann borðaði kvöldmat ásamt liðsfélögum sínum en aðalliðið dvelur alltaf saman á hóteli nóttina fyrir leik svo leikmenn hvílist sem best.

Hólmbert bíður enn eftir tækifærinu með aðalliðinu en hefur nokkrum sinnum verið 19 maður inn í hóp og hefur hingað til leikið með U20.

„Vonandi fæ ég sénsinn fljótlega þar sem titillinn er kominn í hús. Ég er búinn að vera smá óheppinn með meiðsli og líkaminn er enn að bregðast við breytingunum en þetta er miklu meira „intensity“ en ég er vanur.

Þegar ég fæ tækifærið þarf ég að nýta það en það gerist stundum og stundum ekki. Ég verð alveg bókað þokkalega stressaður fyrir fyrsta leiknum fyrir félagið með mörg þúsund áhorfendur að horfa en vonandi fer það vel. En ef ekki þá er það enginn heimsendir, það er alltaf annar leikur.“

mynd. facebook. Hólmbert og kærasta hans Guðbjörg Loftsdóttir

Hólmbert og kærastan, Guðbjörg Loftsdóttir.

Það var líka erfitt að flytja út,

„Þetta er búið að reyna á mig allann, algjörlega“.

Líkamlega álagið er mikið í Skoska boltanum þar sem Hólmbert mætir á fótboltaæfingar tvisvar á dag og lyftir sjálfur aukalega. Hann hefur því glímt við smávægileg meiðsli og er að koma úr litlu „náraveseni“.

Fyrstu tvo mánuðina segir hann hafa verið erfiðasta og að það hafi verið erfiðast að fara frá fjölskyldunni, kærustunni og vinunum.

„Kærasta mín er í Menntaskólanum í Kópavogi en hún er búin að vera mjög dugleg að kíkja á mig og tekur allar pásur sem hún getur í skólanum til þess að koma. Það er búið að vera mikið lagt á hana svo hún á hrós skilið fyrir þetta allt saman“.

„Mamma, pabbi, litli bróðir minn og kærastan eru öll hérna núna yfir Páskana en systir mín er reyndar heima á Íslandi. Það er alveg geðveikt að fá þau hingað í fyrsta skiptið öll saman.“

23360836

Hólmbert er ánægður í Skotlandi,

„Það er draumur allra fótboltamanna að verða atvinnumaður. Ég er nýkominn út, klúbburinn er frábær með flotta sögu og frábæra stuðningsmenn svo allt er í toppstandi. Ég er að læra á atvinnumennskuna og vissi alltaf að það yrði erfitt að fá að spila og næsta tímabil er kannski meira það sem ég horfi á og mínútur á þessu tímabili eru bara plús.

Ég er búinn að bæta mig meira en mig grunaði að ég myndi gera á svona stuttum tíma og ég ætla halda áfram að gera það með toppleikmönnum á hverjum degi. Ég spila sirka annann hvern leik með U20 og er búinn að skora þrjú mörk í sex leikjum sem er allt í lagi. En það er bara gott að fá að spila og komast í leikform.

Ég bý í íbúð í West End Glasgow og þar búa líka aðrir leikmenn í liðnu. Þetta er mjög þægilegt hverfi með fullt af veitingastöðum og allt nálægt.

Þegar ég kom út 3. Desember fór ég beint í það að skoða einhverjar 8-10 íbúðir með „gæjanum sem sér um mig“. Ég var svo skyndilega kominn út í þetta og það var smá sjokk en allir hafa verið rosalega góðir og hjálpsamir svo að þetta gekk allt vel. Maður hefði samt alltaf viljað hafa mömmu til þess að hjálpa sér!“

mynd.facebook. hólmbert og systir hans sylvia Briem

Hólmbert og Sylvia Dagmar Briem, systir.

Dagurinn biður Hólmbert að gefa yngri fótboltamönnum heima á Íslandi ráðleggingar og hann minnist fótboltaæfinga með afa sínum,

„Þegar ég var yngri var ég alltaf að æfa tæknina og ef ekki með félögunum þá var það með honum afa mínum sem hefur mikið vit á fótbolta. Hann var með mér úti í garði að gera hinar og þessar æfingar og svo verðlaunaði hann mig með ís eða fótboltaskóm ef ég náði einhverju markmiði“.

Dagurinn óskar Hólmberti til hamingju með afmælið og það verður spennandi að fylgjast með gangi mála í Skotlandi.

Uppfært: Hólmbert er í hóp hjá Celtic!