Helmuth Þór slær í gegn á Facebook!

Helmuth Þór Ólafsson er örugglega með fleiri ‚poke‘ en felstir strákar á hans aldri. Þessi sautján ára gamli nemandi í Fjölbrautarskólanum í Garðabæ á ættir að rekja til Perú og Þýskalands. Hann vinnur í Outfitters Nation í Kringlunni, hefur gaman af því að fara í ræktina og er líka bráðefnilegur tónlistarmaður. Dagurinn ræddi við Helmuth um tónlist, stelpur og framtíðina.

„Ég hef alveg verið að syngja síðan ég var átta ára gamall. Ég spilaði mikið á trommur og píanó en svo lærði ég á gítar sjálfur,“ segir Helmuth en segist þó ekki hafa mjög mikla reynslu á sviði. Hann er þó ekki feiminn og hræðist greinilega ekki að stíga á svið fyrir framan fullan sal af fólki.

„Þegar ég var yngri tók ég þátt í nokkrum söngkeppnum eins og t.d. Röddinni og svo vann ég söngkeppnina Tónkvísl á Laugum“.

Margir kannast ef til vill við Helmuth en hann tók þátt í hæfileikakeppni stöðvar 2, Ísland got talent nú fyrr á árinu og segir hann það hafa verið skemmtilega lífsreynslu.

helmuth

Helmuth deilir myndböndum af sjálfum sér að syngja á Fésbókarsíðu sinni og hefur fengið mikil viðbrögð og þá sérstaklega frá hinu kyninu. En hvernig kemur það til að menn fara (og þora) að setja myndbönd af sér að syngja á netið?

„Ég setti fyrsta myndbandið á Facebook eftir að ég var heima að leika mér að syngja og mig langaði að prófa að deila því. Þetta var bara til gamans gert og ég fékk strax rosalega góð viðbrögð“.

Helmuth fer að hlægja þegar blaðamaður spyr hann út í athygli frá stelpum en segist þó fá mikið af vinabeðnum á samskiptamiðlunum og hafi fljótlega átt yfir 3000 vini á Facebook.

„Stelpurnar taka alveg mjög vel í þetta en ég er samt á föstu sko,“ segir Helmuth en kærasta hans er einu ári yngri og hafa þau verið saman í hálft ár.

Helmuth horfir upp til tónlistarmanna eins og Ed Sheeran og John Mayer en ekki er hægt að horfa algerlega framhjá ungstirninu Justin Bieber þó svo að Helmuth segist ekki líta neitt sérstaklega upp til hans.

Helmuth vill halda áfram að búa til tónlist og vonast til þess að geta orðið tónlistarmaður í framtíðinni.

„Ég er byrjaður að semja tónlist sjálfur og stefni á að gefa út efni í sumar,“ segir Helmuth hress að lokum.

Helmuth spilar á trommur, píanó og gítar auk þess sem hann syngur eins og engill og Dagurinn mun klárlega fylgjast með þessum unga manni í framtíðinni.