Pistill: Hvenær tókst þú síðast selfie?

Egill Fannar Halldórsson vinnur gegn glötun íslensku tungunnar með nýyrðasmíði

Egill Fannar Halldórsson er selfiesjúkur

Hvenær tókst þú síðast selfie? Var það krúttlegt Snapchat þar sem þú sendir „góða nótt og kossakall“ til elskunnar þinnar? Eða leistu óvenju vel út í speglinum í ræktinni og laumaðir einni mynd þegar enginn sá til og settir á Instagram?

Ástæðan fyrir selfie myndatökunni skiptir ekki öllu máli, heldur sú staðreynd að þú gerðir það án þess að hugsa þig tvisvar um. Af því að á árinu 2014 er jafn eðlilegt að taka selfie á götum úti eins og drekka vatn.

Hugmyndafræðin á bakvið selfie er í raun ekkert sérlega ný – fyrsta sjálfsmyndin var tekin árið 1839 af Robert Cornelius og þurfti hann að standa kyrr í heilar fimmtán mínútur til að ná myndinni. Árið 2013 hins vegar varð fyrirbærið selfie svo þekkt að það var valið Orð ársins af Oxford orðabókinni. Barack Obama bandaríkjaforseti, David Cameron forsætisráðherra Breta og Helle Thorning-Scmidt forsætisráðherra Dana voru mikið gagnrýnd fyrr á árinu fyrir að taka selfie við minngarathöfn Nelsons Mandela. Frægasta selfie í heimi var svo tekin fyrir alls ekki löngu síðan, þegar Ellen tók sjálfsmynd með úrvalsliði leikara á Óskarsverðlaunahátíðinni.

Það er ekkert leyndarmál að selfie er í rauninni svokallað „mont-tól“. Þrátt fyrir að myndin sé yfirleitt bara af andlitinu á þér, eru leynd skilaboð sem búa í myndinni. Til dæmis: „Sjáðu hvað ég er flott/ur“, „Það er svona gaman hjá mér“ eða „Sjáðu hvern ég hitti!“

En þegar við skrollum í gegnum Instagram og sjáum glæsilega selfie þá látum við alltof auðveldlega gabbast. Selfie lítur nefninlega út fyrir að vera fljótlega tekin mynd sem fangaði augnablikið á hárréttum tíma. En hugsaðu þig betur um, rannsóknir hafa leitt í ljós að meðalmaðurinn tekur að minnsta kosti sjö sjálfsmyndir áður en hann er ánægður með útkomuna. Þar að auki rugla 69% einstaklinga í hárinu á sér eða laga á sér andlitsfarðann (þetta á sérstaklega við kvenkyns selfie ljósmyndara). Tölum svo ekki einu sinni um þá óteljandi filtera og glansforrit sem eru til og leynast í ólíklegustu símum.

Það er rosalega eðlilegt að taka sjálfsmynd í dag. Selfie er meira að segja orðið svo eðlilegt fyrirbæri að við hugsum ekki út í það þegar við sjáum andlitsmynd sem greinilega var tekin af eigin hendi. Við tökum þó eftir því þegar sumir einstaklingar hafa þróað með sér sérstaka hæfileika í sjálfsmyndatöku. Það er eins og myndin sé tekin á ljósmyndastofu og hún fangar allt það besta í viðkomandi og margfaldar það á einni mynd. Einn þessara einstaklinga er Benny Winfield Jr. Hann er óumdeilanlega kyndilberi selfie-menningarinnar. Hann hefur yfir 195 þúsund „followers“ á Instagram og deilir nýrri selfie á hverjum degi, en að sjálfsögðu með nýjum bakgrunn hverju sinni, svo að allar myndirnar séu ekki eins.

Taktu upp símann, „followaðu“ Benny Winfield Jr., brostu og taktu fullkomna sjálfsmynd.

#selfie #dagurinn