Nýyrði Dagsins: Tannvatnslosun

Egill Fannar Halldórsson vinnur gegn glötun íslensku tungunnar með nýyrðasmíði

Tannvatnslosun er ekki eitthvað svona detox-dót hjá Jónínu Ben. Þetta kann að hljóma eins og dýr og tímafrek aðgerð hjá bifvélavirkja eftir að tannhjólið á sleðanum þínum byrjaði að leka, en það er það ekki. Tannvatnslosun er nýtt orð um glænýtt fyrirbæri!

Þetta er frekar ógeðslegt, ég viðurkenni. En hvað um það, hér kemur þetta:

Hver kannast ekki við það að „snooze-a“ alltof lengi og vakna með slefið í andlitinu og koddafarið á kinninni.  Þú rífur þig upp og ætlar að hoppa beint inn í sturtu. Til að byrja með seinkar þér um tvær mínútur af því að þú þarft að pissa. Svo stekkur þú inn í sturtuna og ætlar að stökkva aftur út  áður en þú veist af – En hún er bara svo góð! Þú ert nývaknaður og kaldur en sturtan er svo heit og góð, þú vilt ekki fara úr henni.

Eftir að sturtan er búin, sem vel á minnst tók fimm mínútur átt þú svo eftir að tannbursta þig áður en þú getur loks klætt þig í fötin og hunskast út í daginn!

Pissa (2mín), Sturta (5mín) og tannburstun (2mín) = 9 mínútur sem það tók þig að rífa þig á lappir!

Tannvatnslosun er eiginlega bara tækni. Tækni til þess að vinna morgunamstrið og mæta á réttum tíma án þess að skerða þau lífsgæði sem heit og góð sturta felur í sér. Þetta kann að fara fyrir brjóstið á einhverjum en tannvatnslosun þýðir einfaldlega að setja tannkrem á tannburstann, stíga inn í sturtuna og bursta tennurnar á meðan að þú pissar og þú getur látið sturtuhausinn hlýja þér í heilar fimm mínútur án þess að verða seinn og án þess að fá samviskubit!

Þegar þú vaknar í fyrramálið með koddafarið á kinninni og þarft að berjast við bæði heita sæng og syngjandi vekjaraklukku þá skaltu bara muna eftir tannvatnslosuninni og rífa þig á lappir!