Reykingar eða Instagram eftir kynlíf?

egillEgill Fannar skrifar um síma-, reykinga- og kynlífsvenjur Íslendinga

Við sitjum í einni klessu með teppi yfir okkur í dúnmjúkum leðursófa. Við erum með fæturna uppi á borði og smjöttum á snakki með sérstakri ostaídýfu sem við lögðum mikið á okkur við að útbúa. Við erum að horfa á bíómynd og lítum ekki einu sinni af skjánum þó svo að við potum óvart þrem fingrum ofan í sjóðandi heita ídýfuna – það er nefninlega drepheitt kynlífsatriði í gangi og það sést í brjóst og allt.

Brjóstin fá fimm stig af fimm mögulegum og karlinn er með „six-pack“. Þessi mynd hlýtur að fá Óskarinn, þó að það sé ekki nema bara fyrir að hafa svona sexy leikara. Eftir háværar stunur frá báðum aðilum er greinilegt að þetta besta atriði myndarinnar er að fara taka enda. Sænginni er lyft og bæði setjast þau upp við rúmstokkinn. Hún teygir sig að náttborðinu (ennþá á 5/5 brjóstunum) og tekur upp sígarettupakka. Þau kveikja bæði í og reykja út senuna á meðan þau tala saman á mjög kynþokkafullann hátt.

Þetta atriði – eða allaveganna líkt þessu – höfum við séð svona þúsund sinnum. „One hell of a sex“ og svo beint í smók! En er þetta að gerast í raunveruleikanum? Tja, ég held að raunveruleikinn hafi í það minnsta verið svona. En ekki í lengur. Tímarnir eru alltaf að breytast sjáðu til. Sígarettur voru það svalasta í þá gömlu góðu daga, en ekki í dag. Í dag er flottara að borða hor á almannafæri en að reykja sígarettur. En hvað kemur þá í staðinn?

Hefur þú tekið eftir einhverjum nýjum venjum eftir kynlíf hjá þér kæri lesandi og snjallsímanotandi? Það eru símarnir! Facebook, Instagram, Snapchat og þetta blessaða Yevvo sem ég bara nenni ekki að læra á!

Eftir að hafa tekið sjálfur eftir þessari furðulegu þróun ákvað ég að rannsaka málið. Er ég sá eini sem tek eftir þessu? Alls ekki!

Ég fann rannsókn á vef Lookout sem er símaöryggisfyrirtæki í San Francisco. Þar kemur fram að hjá 20% Ameríkana er það fyrsta sem þau gera eftir kynlíf er að teygja sig í snjallsímann. Þetta hefði líklegast verið sígaretta fyrir nokkrum árum?

Þetta hlýtur að vera góð þróun; Að hætta að reykja og vera bara aðeins á Instagram í staðinn. En breytingarnar eru ekki svona hættulausar, á meðan reykingarmenn segja að sígarettur færi fólk saman þá færa símarnir okkur svo sannarlega í sundur, hvað varðar persónuleg samskipi í það minnsta. 30% Ameríkana nota nefninlega líka snjallsímanna á meðan þeir sitjast niður og borða með öðrum.

Eru símarnir þá að taka yfir sígaretturnar? Það er ljóst að símarnir koma að vissu leyti inn þar sem sígaretturnar hafa horfið frá en af hverju þurfum við alltaf að verða svona sjúk? Sígarettufíklar er sem betur fer hópur í útrýmingarhættu en fíkn í snjallsíma er eitthvað sem við getum næstum því öll státað okkur af. Meira að segja eru rannsakendurnir í Lookout sammála mér, en þeir segja að 75% Ameríkana þjáist af raunverulegri ofsahræðslu ef þeir týni símanum eða gleymi honum heima. Það eru ef til vill margir sem lesa þennann pistil sem geta tekið undir þetta?

Það gleður mig að sjá alltaf færra og færra fólk úti að reykja og sömuleiðis er ég aðdáandi snjallsímanna og öllum þeirra möguleikum. En mér er líka annt um mannleg samskipti og hræðist stundum að einhversstaðar á leiðinni munu yngstu kynslóðirnar glata þeim hæfileikum á kostnað tækninnar. Því hvet ég alla til þess að gefa sér að minnsta kosti fimm mínútur eftir kynlíf til þess að tala saman á persónulegu nótunum, en þið getið þá auðvitað alltaf „stream-að“ því á Yevvo.