Hanna fatalínu í samstarfi við hönnunarskóla í NY

unnamed

Þrír menntaskólanemar, þeir Arnar Leó, Sturla Sær og Konráð Logi eru ekki ósáttir við verkfallið en þeir hafa í nægu öðru að snúast. Þeir félagar standa á bakvið nýja tískumerkið Reykjavík X Roses sem teygir anga sína frá Reykjavík og alla leið til Brooklyn í New York. Dagurinn náði tali af þessum ungu frumkvöðlum.

Arnar Leó hafði lengi átt stóra drauma um fatahönnun og hafði í huga að hanna sína eigin línu en boltinn fór fyrst að rúlla eftir að hann sá mynd á samskiptamiðlunum af skólabróður sínum úr Menntaskólanum við Sund, Sturlu, vera að sauma föt fyrir sjálfan sig.

Hönnunin kemur öll frá þeim sjálfum en strákarnir hafa notið aðstoðar frá vini Arnars sem er við nám í Parsons: The new school for design í New York. Þeir hanna allar merkingar en kaupa boli að utan ásamt því sem þeir sauma sína eigin boli.

„Sturla er undrabarn á saumavél, bara koma því að“, skýtur Konráð inn.

„Við erum að reyna að koma aftur með gömlu góðu hjólabrettatískuna, frekar einfalda boli en með áhrifum frá nútíma tískustraumum”, segir Arnar. Áður en þeir félagar fóru með vöruna í loftið höfðu þeir prófað ýmislegt, „Við vildum ekki gefa neinar týpur frá okkur fyrr en við vorum komnir með þau gæði sem við erum með í dag“, segir Sturla.

+Logi Pedro úr Retro Stefson og The Highlands í bol frá Reykjavík X Roses

Reykjavík X Roses bolirnir eru prentaðir á Íslandi en síðan sendir til Brooklyn í Studio-myndatöku áður en varan fer loks í sölu hér á landi.

„Stefnan er klárlega að komast út “ segir Sturla en Arnar Leó bætir við: „Við erum ekkert rosalega mikið að pæla í peningahliðinni núna heldur erum við frekar að einbeita okkur að því að kynna vöruna og ná til fólksins“.

„Við erum með góða vöru í höndunum og við höfum allir þrír gríðarlega mikið „passion“ fyrir þessu verkefni og þess vegna held ég að okkur sé allir vegir færir“ segir Konráð.

Strákarnir byrjuðu að kynna Reykjavík X Roses fyrir um það bil þremur vikum síðan í Smáralindinni en þar voru þeir með bás og seldust allar þeirra vörur upp á einni helgi. Þá tóku þeir upp á því að selja boli í forsölu og áætla þeir að skila þeim vörum af sér fyrir 1.apríl.

unnamed (1)

Aðspurðir út í verkfall menntaskólakennara eru þeir fljótir að svara: „Verkfallið hentar okkur þannig séð ekkert illa, við getum núna bara einbeitt okkur 100% að þessu verkefni“.

„Við erum með stórar hugmyndir og erum bara spenntir að stækka við línuna“, bætir Sturla við að lokum.

Reykjavík X Roses vörurnar verða fáanlegar í verslun Noland í Kringlunni frá og með byrjun apríl og síðar á vefsíðu Reykjavík X Roses. Þangað til verður hægt að hafa samband í gegnum Fésbókarsíðu Reykjavík X Roses.