Fortíðarsæla

FORTÍÐARSÆLA

Nostalgía, söknuður, eftirsjá eða fortíðarfíkn?

Einu sinni var. Allar sögur sem byrja á þessum orðum byrja vel. Á eftir þessum orðum kemur eitthvað sem er fallegt eða lætur okkur líða vel, t.d. „Einu sinni voru karl og kona í koti sínu“ eða „Einu sinni var falleg prinsessa sem bjó í stórum kastala“. Engin saga byrjar á: „Einu sinni var vondur karl sem bjó í ljótu húsi…“

Allt er svo ljúft í minningunni. Þegar við lítum til baka minnumst við oftast einhvers sem okkur þykir vænt um eða einhvers sem okkur þótti gaman að gera. Hlutirnir breytast rétt eins og mennirnir og því er margt sem við gerum ekki í dag sem okkur þótti skemmtilegt áður. Í mörgum tilfellum ættum við að reyna að bæta úr því en sumt hefur einfaldlega breyst. Í þessu tilviki er ég að hugsa um fyrsta samskiptamiðilinn sem ég kynntist, MSN.

Ég kynnist MSN fyrst á gólfinu hjá vini mínum þegar ég var í grunnskóla. Þetta var nýjasta nýtt og var meira spennandi en allt! Maður gat talað við alla vini sína í einu og sent broskalla og allt. Það var hinsvegar ekki sjálfgefið að fá leyfi hjá mömmu og pabba til að stofna aðgang en hvað þá að nota MSN heima. Þurfti þá að taka allt símasamband af húsinu til þess að kveikja á internetinu og því ljóst að það mátti ekki fara mikill tími í óþarfa spjall og broskallasöfnun.

Þegar ég var kominn í unglingadeild grunnskóla var staðan orðin allt önnur. Tækninni hafi fleytt áfram síðustu ár og með tilkomu ADSL tengingar á flestum heimilum varð sprenging í netnotkun Íslendinga. Samskiptamiðlar gátu nú rutt sér til rúms og orðið í fyrsta skiptið ómissandi hluti af samfélaginu. Í kjölfarið fór lífið að snúast æ meira um að eiga skemmtilegt blogg eða eiga marga vini á MSN. Daglegur nethringur var að gera status á blog.central síðunni til að afsaka „bloggleysið“ þrátt fyrir að það væru max 5 dagar síðan síðasta færsla kom inn, spjalla á MSN og það var lykilatriði að hlusta á einhverja töff tónlist á meðan og vera með kveikt á „show what I am listening too“ á itunes.

Microsoft tilkynntu í lok árs 2012 að MSN yrði sameinað samskiptaforritinu Skype á fyrsta ársfjórðungi 2013 og sömuleiðis lokaði 365 blog.central síðunum sama ár. Breytingar eru hluti af þróun samfélagsins en við munum alltaf muna eftir andvökunóttum þar sem við blogguðum um svefnleysið, spjölluðum klukkutímum saman á MSN og kynntumst fólki sem við höfðum aldrei séð, söfnuðum brosköllum og fórum í vikulöng sambönd.

Það er alveg ljóst að það væri óborganlegt að geta njósnað um sjálfann sig sem 15 ára pervert og geta skoðað öll MSN samtölin og gömlu bloggsíðurnar. Hins vegar held ég að það sé okkur sjálfum fyrir bestu að leyfa þessum skemmtilega tíma að lifa bara í minningunni.